Mættur aftur í sæluna

Komst loksins hingað eftir langa bið á flugvellinum í Nuuk. Var ekki mjög traustvekjandi þar sem ein flugvél frá þeim krassaði um daginn hér í Ilulissat og orsökin á seinkuninni var tæknileg bilun :) En þetta hafðist nú allt saman. Það var logn, stjörnubjart og 12 stiga frost hér eða eins fallegt og það getur verið. Í dag er hvasst og hitinn við frostmark.

Virkjunin gengur bara og gengur og eru engin stórvandræði þar.

Það er kominn nýr yfirmaður hér hjá Nukissiorfiit sem er yfir öllu héraðinu. Það er hún Úlla og á hún örugglega eftir að standa sig vel.

Þegar ég var hér í desember sást aldrei til sólar en nú er daginn farið að lengja mikið og lengist hann um 20 mín á dag. Byrtan að verða falleg og skemmtileg til myndatöku.

Eftir vinnu í gær skrapp ég með honum Ken á hundasleða til að vitja um selanet. Skemmtileg ferð en engan selinn fengum við. Hann þarf 1 sel á viku til að fóðra hundana sína svo það er eins gott að halda sig við veiðarnar. Fæ vonandi að fara með honum aftur og ná því að veiða sel :)

sleðahundur

Þeir eru flottir og öflugir þessir sleðahundar

Hundasleðaferð

Það er ekki mikill snjór hér en hundarnir draga okkur yfir nánast hvað sem er.

Hundasleðaferð

Hér erum við að brölta upp hlíðina á milli steina. Það að sitja á sleðanum í þessu er svipuð tilfinning og að vera um borð í tréskipi á sjó. Það marrar í öllu og sleðinn liðast yfir stokka og steina. Sleðinn er bundin saman en hvorki skrúfaður eða negldur og því er hann allur mýkri og það eru ekki eins mikil högg þegar hann fer yfir grjót, hann bara liðast yfir þau.

Hundasleðaferð

Hér erum við að fara niður ísilagt gil og þá eru hundarnir hafðir fyrir aftan sleðan og notaðir sem bremsa. Þarna á bakvið sést í Ísfjörðinn.

sleðahundar

Hundarnir fylgsust vel með þegar við tókum upp netið og þeir voru jafn vonsviknir og við að fá ekki sel því þá hefðu þeir fengið að borða innmatinn þarna.

Ken að höggva vök

Ken að höggva vök þar sem netið er. Þetta eru vinnubrögð sem maður þekkir úr Mývatnssveitinni :)

Gott að sinni og hafið það sem best og njótið tilverunnar.

Pétur Bjarni